Sagnadansar

Sagnadansar. Vésteinn Ólason bjó til prentunar. Rannsóknastofnun í bókmenntafræði og Menningarsjóður. Reykjavík 1979. 435 bls. (Óinnbundin).

Undirstaða þessarar prentunar, sem Vésteinn Ólason og Hreinn Steingrímsson áttu veg og vanda af, er útgáfa Jóns Helgasonar, Íslenzk fornkvæði. Þangað eru svo að segja allir textarnir sóttir. Þeir eru prentaðir hér nákvæmlega eins og þeir voru skrifaðir upp að undanskilinni stafsetningu.

Reynt er að láta allar orðmyndir haldast, þótt þær brjóti í bága við venjur um stafsetningu, ef einhver ástæða er til að ætla að þær gefi til kynna sérstakan framburð. Stundum er aðeins prentaður hluti úr texta til þess að sýna einhver ákveðin frávik í frásögn. Eina breytingu hefur þó þótt óhjákvæmilegt að gera á textunum miðaða við uppskriftir. Viðlag er hér aðeins prentað með fyrsta og síðasta erindi.

Í handritum eru viðlög nærri alltaf skrifuð með hverju erindi og þannig hafa kvæðin vitaskuld verið sungin. Það hefði hins vegar lengt bókina óhæfilega að fylgja þessari reglu. Áður fyrr var það algengt að þeir sem bjuggu sagnadansa til prentunar handa almenningi reyndu að „lagfæra“ uppskriftirnar með því að blanda þeim saman eftir eigin smekk og geðþótta. Hér er þetta hvergi gert. Þar sem augljóst þykir að um ritvillur eða mismæli sé að ræða er það leiðrétt en jafnframt getið um það í athugasemdum.

Höfundur: Vésteinn Ólason bjó til prentunar

Útgáfuár: 1979

Blaðsíðufjöldi: 435

ISBN:9979-54-309-4