Vésteinn Ólason

Image

Vésteinn Ólason fæddist á Höfn í Hornafirði 14. febrúar 1939. Hann lauk stúdentsprófi úr máladeild Menntaskólans að Laugarvatni 1959 og meistaraprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1968. Hann lauk síðan doktorsprófi við Háskóla Íslands 1983. Á árunum 1968 til 1972 var Vésteinn íslenskur lektor við Kaupmannahafnarháskóla og stundaði jafnframt rannsóknir við Árnastofnun. Frá árinu 1972 sinnti hann kennslu við Háskóla Íslands, fyrst í almennri bókmenntasögu/bókmenntafræði, en frá 1980 í íslenskum bókmenntum. Í kennslu sinni í almennri bókmenntafræði lagði Vésteinn megináherslu á að kynnna ný viðhorf og aðferðir í bókmenntafræði, en í íslenskum fræðum var kennsla hans einkum á sviði miðaldabókmennta, en þó einnig í bókmenntum 1550–1900 og aðferðafræði. Á síðari hluta níunda áratugarins gengdi Vésteinn stöðu prófessors í íslensku við Óslóarháskóla og í eitt ár var hann gistiprófessor við Berkeleyháskóla í Kaliforníu. Eftir heimkomu 1991 til ársins 2009 var Vésteinn prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, þó án kennsluskyldu frá 1999 þegar hann varð forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar.

Helsta rannsóknasvið Vésteins var upphaflega íslenskir sagnadansar eða fornkvæði, sem hann gaf út og skrifaði um doktorsritgerðina The Traditional Ballads of Iceland (1982). Seinna varð megináhersla á miðaldabókmenntir, einkum Íslendingasögur og eddukvæði, eins og fram kemur bæði í útgáfum, bókmenntasöguskrifum og fjölmörgum ritgerðum. Meginverk á þessu sviði eru kaflar um miðaldakveðskap og Íslendingasögur í Íslenskri bókmenntasögu I-II (1992–1993), sem hann ritstýrði, “Formáli” í Eddukvæði I–II (2014), sem hann gaf út með Jónasi Kristjánssyni og fræðiritið Samræður við söguöld. Frásagnarlist Íslendingasagna og fortíðarmynd (1998) en hún kom einnig út á ensku undir titilinum Dialogues with the Viking Age: Narration and Representation in the Sagas of the Icelanders. (1998) og hefur verið þýdd á fleiri mál.  Frá upphafi sinnti Vésteinn jafnframt samtímabókmenntum, bæði með greinum og ritdómum í blöðum, tímaritum og útvarpi og kom úrval úr því efni út á bókinni Ég tek það gilt. Greinar um bókmenntir tuttugustu aldar (2008).

Vésteinn sat um árabil í stjórn Bókmenntafélagsins Máls og menningar og var ritstjóri Tímarits Máls og menningar með Silju Aðalsteinsdóttur 1983–1985. Auk þess ritstýrði hann um skeið ritröðinni Íslensk rit með Óskari Halldórssyni og Nirði P. Njarðvík og var ritstjóri ritraðarinnar Studia Islandica. Íslensk fræði 1996–1999. Hann gegndi einnig margvíslegum stjórnunarstörfum á starfsferli sínum; var skorarformaður, forstöðumaður Bókmenntafræðistofnunar, forseti heimspekideildar 1993–1995, fulltrúi í Rannsóknarráði Íslands 1994–2000, í stjórn Landsbókasafns-Háskólabókasafns 1994–2002 og 2010–2014, þá formaður stjórnarinnar. Á vegum stjórnvalda sat hann  í úthlutunarnefnd Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs um hríð og í stjórn starfslaunasjóðs rithöfunda.

Hér fyrir neðan má nálgast þær ritsmíðar Vésteins sem birst hafa í íslenskum tímaritum og dagblöðum eða eru aðgengilegar rafrænt. Greinarnar eru flokkaðar eftir efni og raðað í tímaröð innan hvers flokks. Einnig má nálgast hér ritaskrá Vésteins.

Fræðirit

Greinar um íslenskar miðaldabókmenntir og þjóðkvæði

Um fræðimenn á sviði íslenskra fræða

 Greinar um íslenskar bókmenntir síðari alda

Ritdómar um íslenskar bækur