Header Paragraph

Varði doktorsritgerð um tengsl ævintýra og íslenskra miðaldabókmennta

Image

Romina Werth hefur varið doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist A Different Story. The Fairy Tale in Old Norse Literature og var unnin undir leiðsögn Aðalheiðar Guðmundsdóttur, prófessors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Francisco Vaz da Silva, dósent við Háskólastofnunina í Lissabon (ISCTE), og Valdimar Tryggvi Hafstein, prófessor við Háskóla Íslands. Andmælendur við vörnina voru Carolyne Larrington, prófessor við Oxford háskóla, og Jan M. Ziolkowski, prófessor við Harvard háskóla. Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 21. apríl.

Um rannsóknina

Í doktorsritgerð sinni leitast Romina við að rannsaka og leggja fram ný rök í umræðunni um tengsl ævintýra og íslenskra miðaldabókmennta, ekki síst í ljósi sívaxandi áhuga á tengslum þjóðfræðaefnis og norrænna miðaldabókmennta hin síðari ár. Einnig gerir hún grein fyrir mismunandi viðhorfum fræðimanna til þeirra eininga innan ævintýra síðari alda sem eiga sér hliðstæður í miðaldaheimildum. Markmiðið er að greina þetta ævintýraefni og sýna með hvaða hætti það birtist okkur í hinum eldri textum, og hvort um er að ræða heilar ævintýragerðir eða smærri frásagnareiningar á borð við minni (e. motifs). Spurt er að hvaða marki þetta efni sé sambærilegt yngri tilbrigðum úr þeim ævintýrum sem skráð voru eftir munnlegri geymd á 18. og 19. öld og hvernig það greinist að. Að lokum leitast hún við að varpa ljósi á merkingu ævintýraefnis í íslenskum miðaldabókmenntum, sem og tilgang þeirra sagnaritara sem nýttu sér efni úr ranni ævintýranna í bókmenntaverk sín.

Um doktorinn

Romina Werth lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands og MA-prófi í þjóðfræði frá sama skóla. Hún hefur kennt námskeið um íslenskar þjóðsögur og þjóðtrú á háskólastigi og starfar nú sem umsjónarmaður doktorsnáms á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.

Image

Aðalheiður Guðmundsdóttir, Gauti Kristmannsson, Carolyne Larrington, Romina Werth, Jan M. Ziolkowski og Ólöf Garðarsdóttir.