Header Paragraph

Varði doktorsritgerð um örforlög á Norðurlöndum

Image

Ana Stanićević hefur verið doktorsritgerð í menningarfræði, Burn before Reading: Nordic Small Presses of the Twenty-First Century, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. 

Andmælendur við vörnina voru Gunilla Hermansson, prófessor við háskólann í Gautaborg, og Torben Jelsbak, dósent við Kaupmannahafnarháskóla. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Benedikts Hjartarsonar, prófessors í menningarfræði við Háskóla Íslands, en auk hans sátu í doktorsnefnd þau Jesper Olsson, prófessor við Linköping háskólann í Svíþjóð og Tania Ørum, dósent emerita við Kaupmannahafnarháskóla.

Jón Karl Helgason, starfandi forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands miðvikudaginn 23. ágúst.

Um rannsóknina

Doktorsritgerðin er helguð örforlögum á Norðurlöndum í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar (2000–2022). Með örforlögum er hér vísað til sjálfstæðra bókaforlaga sem stefna ekki að fjárhagslegum ávinningi og gefa einkum út fagurbókmenntir, auk þess sem þau staðsetja sig markvisst innan framúrstefnuhefðar. Sjónum er beint að sérstæðri sjálfsmynd örforlaga og tilraunum þeirra til að endurskilgreina sambandið á milli höfundar, útgefanda og lesanda. Auk þess er horft til efnislegra þátta í bókagerð og gerðu-það-sjálfur aðferða, sem og gjörningsþátta er snúa að útgáfu og bókahófum. Aðferðafræðilegur rammi styðst við kenningar á sviði menningarfélagsfræði, bóksögu og bókmenntafræði. Markmiðið er að kanna hvernig örforlög marka sér sérstöðu innan menningarvettvangsins í samtíma okkar og greina þær aðferðir sem þau beita til þess.

Um doktorinn

Ana Stanićević lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli og meistaraprófi í norðurlandafræðum við Háskóla Íslands. Hún er einnig með gráðu í skandinavískum tungumálum og bókmenntum frá háskólanum í Belgrad. Ana hefur kennt við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands um árabil.

Image