Varði doktorsritgerð um myndmál í sálmakveðskap
Johnny F. Lindholm hefur varið doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum, Sandheds Veje. Lutherske Strejflys over Ólafur Jónsson á Söndums Digtning, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
Andmælendur við vörnina voru dr. Henrik Blicher, dósent við Kaupmannahafnarháskóla, og dr. Sigríður Guðmarsdóttir, dósent við Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Margrétar Eggertsdóttur, rannsóknarprófessors á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Anna Vind, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, dr. Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og dr. Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor við sama skóla.
Sólveig Anna Bóasdóttir, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 29. apríl síðastliðinn. (Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni).
Um rannsóknina
Helsta markmið rannsóknar Johnnys er að varpa ljósi á lítt kannað svið íslenskrar bókmennta- og menningarsögu: myndmál í elsta sálmakveðskap á íslensku, nánar tiltekið notkun myndmáls í kveðskap vestfirska skáldsins sr. Ólafs Jónssonar á Söndum (um 1560–1627). Rannsóknin tekur formlega mið af hugmyndum Marteins Lúthers um tungumálið og myndrænt tungutak. Á þeim sögulega grunni er tilgangurinn fyrst og fremst að varpa ljósi á hvernig skáldið tjáir guðfræði sína með myndrænu orðalagi og að kanna hvernig myndmálið á þátt í að auka áhrifamátt skáldskaparins.
Um doktorinn
Johnny F. Lindholm er með B.A. próf í dönsku og þýsku frá Kaupmannahafnarháskóla og cand.mag. próf í norrænum fræðum frá sama skóla. Hann starfar nú sem ritstjóri við Ordbog over det norrøne prosasprog við Institut for Nordiske Studier og Sprogvidenskab við Kaupmannahafnarháskóla.
Sveinn Yngvi Egilsson, Ólöf Garðarsdóttir, Sólveig Anna Bóasdóttir, Johnny F. Lindholm, Sigríður Guðmarsdóttir, Margrét Eggertsdóttir og Aðalheiður Guðmundsdóttir.