Úr landnorðri

Úr landnorðri er 54. bindi í ritröð Bókmenntafræðistofnunar, Studia Islandica, en ritstjóri er Vésteinn Ólason, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands.

Rætur íslenskrar menningar liggja víða, og ein teygir sig í landnorður til þjóðar sem byggir innlönd og annes Skandinavíu, þau sem vita mót Dumbshafi.

Úr landnorðri gerir grein fyrir fornum hugmyndum Íslendinga um Sama, sem þeir kölluðu Finna. Þær bárust einkum með landnámsfólki frá norðlægum byggðum Noregs. Þar voru Norðmenn í nábýli við Sama og höfðu löngum blandað við þá blóði. Í hugarheimi Íslendinga var Sömum einatt ruglað saman við tröll og fordæður, enda ekki laust við að öfundar gætti í þeirra garð vegna bragðvísi í glímu við náttúrulögmálin.

Hér er náma fróðleiks fyrir alla sem vilja kynnast merkilegum og skringilegum dæmum um fjölkynngi og forneskju sem letruð voru á íslenskar miðaldaskræður.

Hermann Pálsson var prófessor emeritus við Edinborgarháskóla, heiðursdoktor frá Háskóla Íslands og víðkunnur fyrir rannsóknir sínar, þýðingar og önnur ritstörf. Ágrip er á ensku.

Höfundur: Hermann Pálsson
Blaðsíðufjöldi: 199
Verknúmer:
ISBN:9979-54-218-7