Tvímæli - þýðingar og bókmenntir

Bók þessi er byggð á áralöngum rannsóknum höfundar sem á undanförnum árum hefur birt margar greinar og ritgerðir um hið „dásamlega vonleysi þýðinga“ eins og höfundur segir í formála.

„Vestur-Evrópa á siðmenningu sína þýðendum að þakka“, segir fræðimaður nokkur sem vitnað er til í þessari bók. Hvort sem menn eru sammála þessari fullyrðingu eða ekki, er augljóst að framlag þýðinga til bókmennta og menningar hefur verið stórlega vanmetið því „menning og tungumál þrífast með margvíslegu móti á þýðingum úr öðrum málum“.

Í bókinni Tvímæli fjallar höfundur á gagnrýninn en aðgengilegan hátt um þýðingafræði og lýsir hugtökum hennar og viðfangsefnum. Áhersla er lögð á bókmenntaþýðingar og meðal annars er fjallað um stöðu og vægi þýðinga í íslenskri menningu og bókmenntasögu.

Tvímæli er fyrsta bók sinnar tegundar á íslensku, bók sem beðið hefur verið eftir, því hún mætir þörf fyrir rit sem gerir á samfelldan hátt grein fyrir fræðasviði þýðinga og bókmennta.

Bókin er 8. bindi í ritröð Bókmenntafræðistofnunar, Fræðirit, en ritstjórar eru nú Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði og Matthías Viðar Sæmundsson, dósent í íslensku, báðir við Háskóla Íslands.

Höfundur: Ástráður Eysteinsson

Útgáfuár: 1996

Blaðsíðufjöldi: 307

ISBN:9979-54-140-7