Trúarhugmyndir í Sonatorreki

Í Egils sögu er greint frá því að Egill Skalla-Grímsson hafi ort kvæðið Sonatorrek eftir að hann hafði misst tvo syni sína. Í kvæðinu tjáir skáldið harm sinn en einnig samband sitt við Óðin. Trúarlegt innihald kvæðisins speglast í skáldamáli þess og þar er vísað til hinnar heiðnu heimssögu og guðdómlegs uppruna skáldskaparins.

Í þessari bók fjallar Jón Hnefill um trúarhugmyndir í Sonatorreki. Hann gerir grein fyrir heimildum um trúarbrögð á Íslandi á tíundu öld og ræðir ítarlega um dánarheima í heiðnum sið en snýr sér síðan að kvæðinu sjálfu.

Trúarheimur sá sem birtist í Sonatorreki kemur heim við þær hugmyndir sem finna má í öðrum heimildum. Þó hefur Óðinsdýrkun þar meira vægi og hlutur sjávargoðanna Ægis og Ránar er einnig stærri. Engin ótvíræð merki um kristinn hugmyndarheim er að finna í kvæðinu.

Þrátt fyrir að kvæðið hafi brenglast telur höfunar það heillegt og ólíklegt að það hafi varðveist í munnlegri geymd þar sem afbakanir í kvæðinu séu fremur ritvillur en brenglun munnlegrar geymdar. Niðurstað hans er sú að það hafi verið rist með rúnum um leið og það var ort og jafnvel líklegt að Þorgerður dóttir Eglis hafi rist það á kefli eins og Egils saga segir.

Dr. Jón Hnefill Aðalsteinsson (f. 1927) er prófessor emeritus í þjóðfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og greinar um trúarbragðafræði og þjóðfræði.

Bókin er 57. hefti í ritröðinni Studia Islandica - Íslensk fræði. Ritstjóri er Ásdís Egilsdóttir.

Höfundur: Jón Hnefill Aðalesteinsson
Útgáfuár: 2001
Blaðsíðufjöldi: 184
ISBN:9979-54-473-2