Sæborgin
Út er komin bókin Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika. Í henni fjallar höfundurinn, Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur, um sæborgir (svo sem gervimenni, vélmenni, klóna) í bókmenntum og myndmáli. Jafnframt er gefið yfirlit yfir erlenda umræðu um líftækni og sæborgir og sérstök áhersla lögð á tengsl hennar við bókmenntir og afþreyingarmenningu. Líftækni er skoðuð í ljósi bókmennta og kannað hvernig orðræða skáldskapar mótar hugmyndir okkar um líftækni.
Sæborgin er aðgengilegt fræðirit sem er meðal annars ætlað að kynna erlenda umræðu um líftækni fyrir íslenskum lesendum. Bókin skiptist í þrjá hluta, “Skáldskap”, “Fræði” og “Ísland” og greinast þeir í styttri kafla. Ritið er fyrst og fremst hugsað sem inngangur og yfirlit auk þess að gefa innsýn í stöðu íslenskrar umræðu um líftækni í alþjóðlegu samhengi. Markmiðið er ennfremur að kanna hvernig þekking getur búið í ólíkum tegundum skáldskapar ekki síður en fræðum. Tengsl tækni og menningar eru könnuð og þá sérstaklega birtingarmyndir þeirra í skáldskap. Hvaða áhrif hefur tæknin á einstakling og samfélag? Hvaða áhrif hefur tæknin á hugmyndir um mennsku? Hver er framtíð mannkyns í tæknivæddu samfélagi?