Header Paragraph

Pistlasafn um valin verk úr sögu esperanto-hreyfingarinnar

Image

Huldukerfi heimsbókmenntanna er nýútgefið safn pistla eftir Benedikt Hjartarson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, sem hverfast um valin verk úr sögu esperantohreyfingarinnar. Pistlarnir varpa ljósi á fjölskrúðuga bókaútgáfu á alþjóðamálinu og þá ólíku hugmynda- og menningarstrauma sem borist hafa hingað til lands með útgáfustarfsemi hreyfingarinnar allt frá því lagður var grunnur að tungumálinu með útgáfu fyrsta ritsins árið 1887.

Í bókinni er gefin fersk og óvanaleg innsýn í miðlægt hlutverk esperantos í sögu alþjóðahyggju og nútímamenningar með hliðsjón af bæði frumsömdum og þýddum verkum. Á meðal þeirra menningarstrauma sem borist hafa hingað til lands með útgáfustarfsemi esperantista eru japanskar og jiddískar bókmenntir, bahá'í-trú og blindramenning. Einnig berast hingað til lands margvíslegir straumar frá mið- og austur-Evrópu, þar á meðal frá Ungverjalandi, Póllandi, Belarús og Úkraínu, en sterkustu vígi hreyfingarinnar voru löngum á því svæði. Saga bókaútgáfu á esperanto er á sinn hátt einstakur spegill á margbotna átakasögu nútímans og dregur fram áleitnar spurningar um örlög alþjóðahyggju á tímum alræðishyggju og hnattvæðingar.

Benedikt Hjartarson lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Groningen árið 2012 og hefur verið prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ frá 2015. Rannsóknir hans liggja á sviði sögulegrar orðræðugreiningar og menningarsögu. Meginviðfangsefni rannsóknanna hafa verið evrópskar framúrstefnuhreyfingar á umræddu tímabili, þar á meðal fútúrismi, dadaismi, expressjónismi, kontstrúktífísmi og súrrealismi.

Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands styrkir útgáfu bókarinnar en Bókaútgáfan Sæmundur gefur út. Sjá einnig á sölusíðu Pennans Eymundsson og sölusíðu Bóksölu stúdenta

Image