Header Paragraph

Miðaldabókmenntaarfur í nýstárlegu samhengi

Image

Bókin The Routledge Companion to Medieval English Literature í ritstjórn Sifjar Ríkharðsdóttur, prófessors í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Raluca Radulescu, prófessors í enskum miðaldabókmenntum við Bangor-háskólann í Wales í Bretlandi, er komin út á vegum Routledge. Sif ritaði einnig grein í bókina sem ber titilinn: „The Venetian Gateway: Commerce Plague, Oriental Motifs“. Nánari upplýsingar um bókina og sýnishorn úr bókinni er að finna á vef Routledge forlagsins

Bókin er veigamikið framlag til breskrar bókmenntasögu þar sem bókmenntir ritaðar á ensku frá um 1066 til 1500 eru settar í nýstárlegt, þvermenningarlegt og alþjóðlegt samhengi. Um er að ræða stórt samstarfsverkefni þar sem ritstjórar hönnuðu víðfemt yfirgripsrit yfir helstu bókmenntagreinar og höfunda sem rituðu á ensku á miðöldum út frá nýrri aðferðafræði þar sem staðbundin bókmenntasköpun á enskri tungu er könnuð út frá og með tilliti til menningarstrauma og tungumálaáhrifa í alþjóðlegu samhengi. Bókin er því ætluð bæði sérfræðingum á sviðinu þar sem settar eru fram nýstárlegar kenningar um enska bókmenntasögu, áhugamönnum um enska bókmenntasögu sem og nemendum í enskum bókmenntum þar sem unnið er með arfinn í víðara samhengi en áður.

Bókin samanstendur af hátt í 40 köflum skrifuðum af helstu fræðimönnum á sviðinu frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Evrópu og Ástralíu. Bókin hefst á yfirgripsmiklum inngangi þar sem farið er yfir sögulegt samhengi bókarinnar og aðferðafræði. Hún skiptist svo í fimm hluta og er hver hluti með sérinngang þar sem viðfangsefni hlutans er tekið saman og yfirlit veitt yfir nálgunaraðferð og áherslusvið kaflanna. Fyrsti hlutinn setur enskar miðaldabókmenntir síðan í menningarsögulegt samhengi þar sem farið er yfir textasköpun, munnlega varðveislu, flutning texta og miðlun, sköpun á móðurmáli, handritavarðveislu, formgerð texta og bókmenntagreinar. Annar hluti hennar beinist hins vegar að samruna og samlegð tungumála og tekur fyrir fjölmenningarsamfélag breskra miðalda og samspil hinna mismunandi tungumála, þar með talið velsku, írsku, skosku, hollensku o.s.frv.

Þriðji hlutinn er sá víðfeðmasti og að einhverju leyti óhefðbundnasti partur bókarinnar þar sem kaflarnir spanna vítt svið og er ætlað að setja bókmenntasköpun á ensku í alþjóðlegt samhengi. Kaflarnir fjalla meðal annars um þýðingar, ferðalög, útbreiðslu og áhrif ákveðinna málasamfélaga, t.d frönsku eða veldi Normanna á miðöldum. Aðrir kaflar einblína á svæði eins og Sikiley sem uppsprettu og suðupott fjölmenningar og málasamfélaga sem hafði víðtæk áhrif, á það sem kalla mætti menningarlegar hliðgáttir eins og Feneyjar, eða gera grein fyrir útbreiðslu trúarlegra eða menningarbundinna samfélaga. Að lokum er að finna kafla sem sýna flókin tengsl farandkaupmennsku, sem hægt er að rekja frá Norðurlöndum og niður til Afríku og lengst austur til Kína, og umfjöllun um kortagerð og upplifun og skilning miðaldamanna á umheiminum. Fjórði hluti bókarinnar er umfangsmestur en hann tekur fyrir helstu höfunda, bókmenntaverk eða bókmenntagreinar miðalda, þar með talið þekkta höfunda eins og Geoffrey Chaucer eða Margery Kempe, verk eins og Sir Gawain and the Green Knight, hina útbreiddu grein rómönsuna eða minna þekktar en þó vinsælar bókmenntagreinar eins og leiklistahefðina. Í lokahlutanum er einblínt á nútímakenningar og -hugtök eins og kenningar um kynþætti á miðöldum, hinsegin fræði, eftirlendufræði, vistræn fræði o.s.frv. og hvernig hægt er að beita þeim í þvermenningarlegu samhengi.

Sif stundaði nám við Háskóla Íslands, Háskólann í Konstanz í Þýskalandi, North Carolina háskólann í Chapel Hill og Washington-háskóla í St. Louis í Bandaríkjunum en hún lauk doktorsprófi með tvöfaldri gráðu í almennri bókmenntafræði og enskum bókmenntum. Hún hefur starfað sem fræðimaður við Háskóla Íslands frá 2011 og rannsóknir hennar hafa beinst að menningarstraumum á miðöldum sem og tilfinningum og miðlun þeirra í bókmenntum. Hún hefur flutt fjölda fyrirlestra um rannsóknir sínar víðs vegar og birt greinar, bókakafla og bækur bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur tekið þátt í og stýrt fjölda rannsóknarverkefna, nú síðast þriggja ára alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem styrkt var af Rannís og beindist að miðlun tilfinninga í bókmenntum.

Image