Matthías Viðar Sæmundsson

Image
Matthías Viðar Sæmundsson

(Ljósmynd: (c) Árni Sæberg)

Matthías Viðar Sæmundsson (23. júní 1954 – 3. febrúar 2004) var bókmenntafræðingur og dósent í íslensku við Háskóla Íslands. Hann lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands í bókmenntafræði og íslensku og cand.mag.-prófi í íslenskum bókmenntum og stundaði nám í samanburðarbókmenntum við háskólann í Montpellier í Frakklandi árið 1978. Matthías Viðar kenndi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1979 til 1980 og var sendikennari í íslensku við háskóla í Róm á Ítalíu árið 1981. Hann var umsjónarmaður menningarþátta í Sjónvarpinu, bókmenntagagnrýnandi og birti pistla um menningarmál.

Aðalrannsóknarsvið Matthíasar Viðars voru íslenskar nútímabókmenntir. Þrjú rit bera þar hæst, cand.mag.-ritgerðin Mynd nútímamannsins. Um tilvistarleg viðhorf í sögum Gunnars Gunnarssonar, Ást og útlegð. Form og hugmyndafræði í íslenskri sagnagerð 1850-1930, greinasafnið Myndir á sandi. Um frásagnarlist nútímaskáldsagna og tveir kaflar í Íslenskri bókmenntasögu III og V um sagnagerð á 18., 19. og 20. öld. Annað meginviðfangsefni Matthíasar Viðars var hugmynda- eða hugsunarsaga fyrri alda og þar beindi hann sjónum einkum að göldrum í ritum sínum Galdrar á Íslandi og Galdur á brennuöld.

Matthías Viðar skrifaði auk þess mikinn fjölda greina og fyrirlestra um bókmenntir og hugmyndasögu, menningu og listir. Hann var lengi áberandi í almennri umræðu um bókmenntir með ritdómum, pistlum um menningarástand, bæði í dagblöðum og tímaritum, og heimildaþáttum í sjónvarpi, til dæmis um Kristján Fjallaskáld en Matthías ritstýrði og ritaði inngang að ljóðmælum hans (1986). Meðal annarra helstu útgáfuverkefna Matthíasar mætti nefna greinasafnið Útisetur: samband geðlækninga, bókmennta og siðmenningar (1998), sem innihélt meðal annars þýddar ritgerðir eftir frönsku fræðimennina Michel Foucault og Jacques Derrida, og Píslarsögu séra Jóns Magnússonar (2001). Matthías stofnaði síðan vefritið Kistuna.is árið 1999 en því var einkum ætlað að efla almenna og fræðilega umræðu um bókmenntir og menningarástand.

Hér fyrir neðan má nálgast upplýsingar um helstu ritsmíðar Matthíasar Viðars á vettvangi bókmenntafræða og menningarsögu sem birtust í bókarformi eða í íslenskum tímaritum og dagblöðum. Hlekkir eru á efni sem er aðgengilegt rafrænt. Greinarnar eru flokkaðar eftir efni og raðað í tímaröð innan hvers flokks.

Bækur

  • Mynd nútímamannsins. Um tilvistarleg viðhorf í sögum Gunnars Gunnarsonar (1982)
  • Stríð og söngur. Sex skáld segja frá (1985)
  • Ást og útlegð. Form og hugmyndafærði í íslenskri sagnagerð 1850-1930 (1986)
  • Minningar barnalæknis. Lífssaga Björns Guðbrandssonar (1987)
  • Myndir á sandi. Greinar um bókmenntir og menningarástand (1991)
  • Galdrar á Íslandi (1992)
  • Galdur á brennuöld (1996)
  • Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey. Fjölskylda og samtíð Héðins Valdimarssonar (2004)

Greinar um bókmenntir og menningarástand fyrri alda

Greinar um nútímabókmenntir

Fræðileg ástundun

Greinaflokkur um rúnir

Gagnrýni

Viðtöl