Kall tímans

Grímur Thomsen birti viðamikla fræðiritgerð um franskar bókmenntir árið 1843 og aðra um Lord Byron og enskar bókmenntir árið 1845. Þær voru báðar gefnar út á dönsku.

Þessar ritgerðir gefa skýra mynd af menntun Gríms og mótun hans á þroskaárunum í Kaupmannahöfn. Þær varpa jafnframt ljósi á almenna þekkingu og fagurfræði á þessu tímabili. Ritið um Byron var lagt fram sem meistaraprófsritgerð en metið sem doktorsritgerð vegna kerfisbreytinga í Kaupmannahafnarháskóla. Þar með varð Grímur Thomsen fyrsti doktor Íslendinga í samtímabókmenntum.

Í þeim fræðiritum Gríms Thomsen sem eru rædd í bókinni má glögglega sjá þróun hans frá hugmyndum Hegels um alheimsandann í átt að tilvistarhyggju Danans Sørens Kierkegaard. Síðar skrifaði Grímur einnig merkar greinar um norrænar samtímabókmenntir og íslenskar fornbókmenntir og orti mörg þekkt kvæði um sögupersónur í miðaldabókmenntum Íslendinga.

Kall tímans fjallar um menntun og alþjóðahyggju Gríms Thomsen sem var maður nútímans í öllum skilningi. Sú niðurstaða er í andstöðu við myndina sem svo oft hefur verið dregin upp af Grími sem afturhaldssömum andstæðingi sjálfstæðisbaráttunnar og „bergrisa á 19. öld.“

Höfundurinn, Kristján Jóhann Jónsson, er dósent í íslensku við Kennaraháskóla Íslands.

Studia Islandica. Íslensk fræði. 58. hefti. Ritstjóri Ásdís Egilsdóttir.

Höfundur: Kristján Jóhann Jónsson
Útgáfuár: 2004
Blaðsíðufjöldi: 274
ISBN:9979-9608-8-4