Í hverri bók er mannsandi

Bókin Í hverri bók er mannsandi eftir Guðrúnu Ingólfsdóttur fjallar um handrit með fjölþættu efni, handritasyrpur. Þau eru frá 18. öld og segja má að einn hugur öðrum fremur móti hvert handrit. Litið er á skrifarana eða hönnuðina, þrjá karla og eina konu, sem höfunda syrpnanna - ytra útlits (t.d. skreytinga), niðurskipanar texta og efnisvals. Hingað til hefur verið litið á slíkar syrpur sem skipulagslausan samtíning en hér eru leidd rök að því að bygging syrpnanna sé markviss og sýnt hvernig þær vitna um hugarheim skapara sinna og stöðu þeirra í heiminum rétt eins og önnur höfundaverk. Tíðindum sætir að ein syrpan skuli byggð upp eins og sól, en val efnis og niðurskipan, svo og skreytingar, benda til þess.

Meginviðfangsefni verksins er bókmenning Íslendinga á umbrotatímum í sögu þjóðarinnar. Ein helsta niðurstaða þess er sú að þekkingarleit kvenna og alþýðukarla hafi verið skipulegri en talið hefur verið. Þó að þau væru ekki skólagegnin nutu þau góðs af almanakshefðinni, en segja má að hún hafi snemma orðið hluti af menntunarprógrammi kvenna og alþýðukarla. Í íslenskum handritasyrpum fléttast almanakshefðin einnig við alfræðihefðina, lærða miðaldahefð. Það sem tengir þessar hefðir er rím eða tímatal. Hérlendis hefur ekki verið kannað áður hvaða áhrif almanakshefðin hafði á bókmenningu þjóðarinnar. Þar eð ein syrpan sem fjallað er um í bókinni er hönnuð af konu er í viðaukum fjallað um handritamenningu kvenna og leitast við að varpa ljósi á á þátt þeirra í bókmenningu íslendinga.