Hið fagra er satt
Hið fagra er satt er afmælisrit Kristjáns Árnasonar rithöfundar, þýðanda og bókmenntafræðings.
Á sjötugsafmæli hans þótti Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, sem hann veitti forstöðu um skeið, hlýða að gefa út á bók helstu ritgerðir hans um bókmenntir, þýðingarlist og heimspeki sem hann hefur ritað í tímarit á undanförnum áratugum, auk kynningarorða hans með fáeinum bókum. Efnisflokkar eru fimm: heimspeki, skáldskaparlist, íslenskan skáldskap, erlendan skáldskap og þýðingar.
Umsögn: Maður sem býr yfir þeirri stílgáfu að geta skrifað málsgrein um heimspeki á íslensku sem er 25 línur eða 318 orð og er svo haganlega gerð og þétt að lesandinn hikar ekki eitt andartak ætti í það minnsta að fá Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Höfundur málsgreinarinnar er Kristján Árnason, skáld, þýðandi og dósent í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hún stendur í ritgerð er Kristján nefnir „Inngangur að heimspeki“ og birtist í nýútkomnu greinasafni hans, Hið fagra er satt. Bókin hefur að geyma helstu ritgerðir Kristjáns um bókmenntir, þýðingarlist og heimspeki frá síðustu áratugum. Kristján er einn af fáum mönnum á landinu sem kunna þá list að skrifa ritgerð. Þar fer saman stíll sem er bæði ljós, fallegur og óvæntur, tær hugsun og yfirgripsmikil þekking á umfjöllunarefnunum. Ritgerðasafn Kristjáns er vafalítið ein af þeim bókum sem flóðið á eftir að gusast yfir en hún ætti að vera á borðum allra þeirra sem hafa áhuga á góðum texta. Enn sem komið er standa þessi 318 orð upp úr öllu öðru sem prentað hefur verið á bók á þessu ári. Þröstur Helgason, - Mbl.
Höfundur: Kristján Árnason
Útgefandi: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands
Útgáfuár: 2004
ISBN: 9979-9608-7-6
Blaðsíðufjöldi: 443
Leiðbeinandi verð: 4.900 kr.