Helga Kress

Image

Helga Kress er fædd í Reykjavík 21. september árið 1939. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1959 og kandídatsprófi í íslensku með þýsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands vorið 1969. Árið 1970 var hún skipuð lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta við heimspekideild Háskóla Íslands og var fyrsta konan sem fékk skipun í lektorsstöðu við deildina. Á árunum 1973 til 1979 var hún sendikennari í íslensku við Háskólann í Bergen í Noregi. Helga var skipuð lektor í almennri bókmenntafræði 1981 og ári síðar dósent í sömu grein. Árið 1991 var hún skipuð prófessor í almennri bókmenntafræði við heimspekideild Háskóla Íslands og gegndi því starfi til 2009. Hún var forseti heimspekideildar Háskóla Íslands 1997-1999 og var fyrsta konan sem kjörin var til embættis deildarforseta við Háskóla Íslands frá stofnun hans 1911.

Rannsóknasvið Helgu er íslensk bókmenntasaga og íslensk bókmenntahefð að fornu og nýju frá kvenna- og kynjafræðilegu sjónarhorni. Hún er brautryðjandi í femínískum bókmenntarannsóknum hér á landi og einn af okkar mikilvirkustu og áhrifamestu bókmenntafræðingum. Helstu fræðirit hennar eru Guðmundur Kamban. Æskuverk og ádeilur (1970), Máttugar meyjar. Íslensk fornbókmenntasaga (1993), Fyrir dyrum fóstru. Konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum (1996), Speglanir. Konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu (2000) og Óþarfar unnustur og aðrar greinar um íslenskar bókmenntir (2009). Einnig hefur Helga ritstýrt ýmsum greinasöfnum og þýtt íslenskar bókmenntir á norsku og erlendar bókmenntir á íslensku, þar á meðal hið sígilda verk A Room of One´s Own (1929) eftir Virginiu Woolf undir titlinum Sérherbergi (1983).

Hér fyrir neðan má nálgast helstu ritsmíðar Helgu á vettvangi bókmenntafræða á íslensku og erlendum málum Íslensku greinarnar eru flokkaðar eftir efni og raðað í tímaröð innan hvers flokks. Þá koma erlendu greinarnar og loks viðtöl við Helgu. Hlekkir leiða lesendur jafnan að rafrænum skjölum (pdf) sem varðveitt eru á vefsíðu Helgu á academia.edu. Ef viðkomandi greinar hafa birst í greinasöfnum Helgu eru rafrænu skjölin úr viðkomandi safni.

Fræðirit

Greinar um íslenskar fornbókmenntir, sagnadansa og sögu

Greinar um íslenska ljóðlist, leikritun og þýðingar

Greinar um íslenskar skáldsögur og smásögur 

Greinar um bókmenntasögu, aðferðafræði og vinnubrögð

Ritdómar um verk íslenskra höfunda og þýðingu þeirra

Greinar um ýmis efni

Ritgerðir og ritdómar á erlendum málum

Viðtöl við Helgu Kress