Heilagra karla sögur

Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands hefur sent frá sér bókina Heilagra karla sögur. Þetta eru sögur 12 dýrlinga frá miðöldum, flestar þýddar eða endursagðar úr latínu eða lágþýsku, en kirkjulegar bókmenntir af þessu tagi eru einn gildasti þáttur íslenskra fornbókmennta.

Bókin hefur að geyma lífssögur heilags Nikuláss, Marteins, Rochusar og Ágústinusar kirkjuföður og píslarsögur Ólafs helga, Vitusar og Stefáns frumvottar og auk sögur af einsetumönnunum Páli og Maurusi. Í bókarlok er svo sagan af frægasta syndara miðalda, Gregoríusi á klettinum. Þetta er í fyrsta sinn sem helgisögur af þessu tagi eru gefnar út á Íslandi.

Sögurnar eru allar gefnar út eftir handritum frá 14., 15. og 16. öld og prentaðar með nútímastafsetningu. Sverrir Tómasson, Bragi Halldórsson og Einar Sigurbjörnsson sáu um útgáfuna en henni fylgir rækilegur inngangur um helgisagnagerð eftir Einar Sigurbjörnsson og Sverri Tómasson. Hverri sögu fylgja svo textafræðilegar athugasemdir og greinargerð um heimildir.

Höfundur:Sverrir Tómasson, Bragi Halldórsson og Einar Sigurbjörnsson bjuggu til prentunar
Útgáfuár: 2007
ISBN: 978-9979-9774-2-1
Blaðsíðufjöldi: 364 bls.