Header Paragraph

Fyrirlestur Jónasar Hallgrímssonar: Kristín Svava Tómasdóttir

Image

Nýjar og gamlar sögur, nýr og gamall texti

Þriðjudaginn 22. mars flytur Kristín Svava Tómasdóttir fyrirlestur kenndan við Jónas Hallgrímsson. Tilefnið er að hún hefur gegnt starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist í vetur.

Textinn í ljóðabók Kristínar Svövu, Hetjusögum frá 2020, er sóttur í verkið Íslenzkar ljósmæður I–III, sem kom út á árunum 1962–1964 og inniheldur æviþætti og endurminningar íslenskra ljósmæðra frá 19. og 20. öld. Kristín Svava smíðar nýtt verk úr þessum gömlu bókum, með það fyrir augum að hylla hugdjarfar konur fyrri alda en einnig að vekja spurningar um söguskoðun, þjóðararf og hefðbundnar ímyndir kvenna.

Nýlega hefur þýðandinn K.B. Thors síðan tekið til við að þýða Hetjusögur yfir á ensku en hún hefur áður þýtt bók Kristínar Svövu, Stormviðvörun, sem kom út í Bandaríkjunum árið 2018 undir titlinum Stormwarning. Í erindinu mun Kristín Svava ræða aðferðir og markmið við endurvinnslu texta eins og þeirra sem Hetjusögur byggja á og þau vandamál sem geta komið upp þegar slíkt verk er þýtt yfir á annað tungumál, þar sem ekki er hægt að hafa „upprunalega verkið“ til hliðsjónar.

Fyrirlesturinn er á vegum Bókmennta- og listfræðastofnunar Háskóla Íslands og fer fram í stofu 201 í Árnagarði þriðjudaginn 22. mars kl. 12–13. Öll velkomin. Aðgangur ókeypis.

Image