Header Paragraph

Fyrirlestrar Torfa gefnir út á frönsku

Image

Út er komin bókin Les sagas islandaises: enjeux et perspectives eftir Torfa H. Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Útgefandi er Éditions du Collège de France í París. 

Bókin er að stofni til fjórir fyrirlestrar sem Torfi flutti haustið 2021 við Collège de France og sem hann bjó síðan til prentunar. Fyrirlestrar við þessa stofnun eiga í senn að vera aðgengilegir almenningi, um leið og þeir komi til skila niðurstöðum nýjustu rannsókna á því viðfangsefni sem til umræðu er. Því miðlar bókin í senn almennum fróðleik um íslensku fornsögurnar, um leið og hún gerir grein fyrir nýjum nálgunum. Í fyrsta kaflanum er fjallað um það hvernig hinar ólíku greinar fornsagna (konungasögur, fornaldarsögur, samtíðarsögur, Íslendingasögur, o.s.frv.) spruttu upp úr reynslu höfunda og viðtakenda þeirra á miðöldum. Fræðilegum hugtökum er beitt til að sýna hvernig sögurnar miðla á ólíkan hátt sjálfsmynd Íslendinga á þessum tíma sem skurðpunkt hugmyndafræði og veruleika.

Í öðrum kafla segir frá nýlegum rannsóknum á minni og hvernig þær hafa breytt afstöðunni til sagnanna sem sögulegrar heimildar. Viðfangsefni þriðja kafla er viðbrögð miðaldasamfélagsins við því ofbeldi sem einkennir það, einkum á Sturlungaöld. Sýnt er hvernig lesa megi ýmsar sögur út frá fræðum um áföll og áfallastreituröskun. Í fjórða og síðasta kaflanum er kafað ofan í afstöðu sagnanna til tungumálsins, einkum margræðni þess. Í framhaldi af því er sýnt hvernig greina megi það sem gerir hverja sögu einstaka með nákvæmri greiningu með hliðsjón af kenningum sálgreiningarinnar.

Torfi H. Tulinius hefur í rannsóknum sínum fyrst og fremst fengist við íslenskar miðaldabókmenntir, einkum fornaldarsögur Norðurlanda og Íslendingasögur. Við túlkun sagnanna hefur Torfi leitast við að beita þverfræðilegri nálgun (frásagnarfræði, táknfræði, viðtökufræði, félagsfræði, sagnfræði og sálgreiningu) í því skyni að auka skilning okkar á því hvaða hlutverki þessar sögur gegndu í miðaldasamfélaginu og hvaða merkingu þær höfðu fyrir höfunda og viðtakendur þeirra. Torfi er höfundur þriggja bóka um fornsögurnar en hefur auk þess skrifað fjölda ritgerða, tímaritsgreina og bókarkafla um þær sem birst hafa bæði hérlendis og erlendis. Eftir hann liggja margvíslegar þýðingar og bera þar hæst þýðingar hans á Sverris sögu, sem kom út á frönsku árið 2010 og á Egils sögu sem kom út á sama tungumáli 2021. Torfi hefur verið gestakennari við háskólana í Montpellier í Frakklandi, Osló í Noregi og Sydney í Ástralíu, auk þess sem hann var gestafræðimaður við École des hautes études en sciences sociales í París og gestafyrirlesari við Collège de France. Þá hefur hann verið heiðraður tvívegis af frönskum stjórnvöldum fyrir framlag sitt til franskra fræða með veitingu orðanna „Palmes académiques“ og „Chevalier des arts et lettres“.

Image