Header Paragraph

Fjarkönnun íslenskrar bókmenntasögu: Verkefni, innsýn og áskoranir

Image

Benedikt Hjartarson, Jón Karl Helgason, Magnús Þór Þorbergsson og Steingrímur Páll Kárason: „Fjarkönnun íslenskrar bókmenntasögu: Verkefni, innsýn og áskoranir“

Fyrirlestrar á vegum Bókmennta- og listfræðastofnunar í stofu HT101 á Háskólatorgi 24. nóvember kl. 12-13.

Á síðustu áratugum hefur tilvist viðamikilla gagnamengja haft markverð áhrif á alþjóðlegar og staðbundnar bókmenntarannsóknir. Sem dæmi má nefna hið áhugaverða rannsóknarsvið stílmælinga þar sem tölvutækni og stærðfræðiformúlur eru nýttar til að leiða líkur að því að tveir eða fleiri textar hafi verið samdir af einum og sama höfundi. Annað vaxandi rannsóknarsvið má kenna við fjarkönnun, fjarrýni eða fjarlestur (e. distant reading) en þar er unnið á skapandi hátt með stafrænar upplýsingar af vettvangi bókmenntanna. Markmiðið slíkra rannsókna er í og með að ögra hefðbundinni áherslu fræðimanna á túlkun einstakra texta og fáeina viðurkennda höfunda eða bókmenntagreinar og beina athyglinni þess í stað að almennari og óhlutbundnari þáttum bókmenntakerfisins. Meðal áhrifaríkra rannsakenda á þessu sviði er ítalski bókmenntafræðingurinn Franco Moretti en hann segir það hafa valið vatnaskilum í sínum rannsóknum að uppgötva að svo til öll fræðileg umræða um skáldsöguna í Bretlandi á 19. öld miðaðist við um 200 titla sem væru minna en 1% þeirra skáldsagna sem út hefðu komið á tímabilinu þar í landi. Í fyrirlestrinum beinist athyglin meðal annars að gagnagrunni Landskerfis bókasafna og þeirri sýn sem hann veitir á þróun bókmenntakerfisins hér á landi og hefðbundna bókmenntasöguritun.