Eyjafræði og bókmenntir
Þriðjudaginn 5. apríl heldur Ástráður Eysteinsson fyrirlestur um eyjafræði og bókmenntir. Í erindinu verður fyrst rætt stuttlega og á almennum nótum um eyjafræði, en síðan verður megináhersla lögð á bókmenntir sem viðfangsefni á þessu þverfræðilega rannsóknasviði. Fjallað verður um staðarvitund, heimsmynd og ferðaleiðir og hugað að sérkennum eyja og merkingarheimi þeirra eins og hann birtist í völdum dæmum íslenskra sem erlendra bókmenntaverka.
Ástráður er prófessor í almennri bókmenntafræði og fyrrverandi forseti Hugvísindasviðs. Hann hefur um árabil verið afkastamikill fræðimaður og birt bækur og greinar bæði hér heima og erlendis. Meðal bóka hans má nefna The Concept of Modernism, Tvímæli – Þýðingar og bókmenntir og Orðaskil. Hann hefur ritstýrt og annast útgáfu fjölda bóka og má þar nefna bækurnar Translation – Theory and Practice, Heim skáldsögunnar og nú síðast safnrit með frumsömdum og þýddum ljóðum Einars Braga. Þá hefur hann verið ötull þýðandi og þýtt lungann úr höfundarverki Franz Kafka ásamt föður sínum Eysteini Þorvaldssyni.
Fyrirlesturinn er á vegum Bókmennta- og listfræðastofnunar Háskóla Íslands og fer fram í stofu 101 í Lögbergi þriðjudaginn 5. apríl kl. 12–13. Öll velkomin og aðgangur ókeypis.