Header Paragraph

Bókmenntafræðileg umfjöllun um Sjón

Image

Þrír fræðimenn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands eru höfundar greina í nýútkomnu greinasafni Routledge um höfundarverk Sjón. Bókin er mikilvægt framlag til fræðilegrar umræðu um íslenskar samtímabókmenntir og sætir það tíðindum að bók um íslenskan höfund birtist hjá stóru alþjóðlegu forlagi.

Titill bókarinnar er Critical Approaches to Sjón : North of the Sun og ritstýrur hennar eru Linda Badley, Úlfhildur Dagsdóttir og Gitte Mose. Ásta Kristín Benediktsdóttir, dósent í íslenskum samtímabókmenntum við Íslensku- og menningardeild HÍ, ritar greinina „The End of the World as We Know It: Queerness and Utopias in Sjón’s Poetry and Prose“, Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í bókmenntafræði, skrifar „Transnational and Counter-Memorial Practices: Antisemitism, Nationalism, and the Second World War in Sjón’s Works“ og greinin „Sjón’s Nuclear Dystopia: Reflections on Stálnótt, Medúsa, and Johnny Triumph’s Musical Career“ er eftir Jón Karl Helgason, prófessor í íslensku sem öðru máli.

Sjón er einn sérstæðasti höfundur Íslands og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, auk þess sem kvikmyndin Dýrið hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, en hann er meðhöfundur handrits. Áhugi á verkum hans erlendis eykst stöðugt, ekki síst nú þegar hann er farinn að vinna meira við kvikmyndir. Það er vitað að fræðileg skrif um höfunda eru mikilvægur þáttur í að auka vægi þeirra á alþjóðlegum vettvangi. Að mati útgefanda var því brýn þörf á að út komi fræðilegt rit um hann á ensku, svo að erlendir lesendur geti kynnt sér verk hans nánar, ekki síst þau sem enn eru óþýdd. Markhópur verksins eru alþjóðlegir lesendur, kennarar, nemendur og annað fræðifólk.

Nánar á vef Routledge.

Image