Upplýsing og saga
Upplýsing og saga: Sýnisbók sagnaritunar Íslendinga á upplýsingaröld. Ingi Sigurðsson bjó til prentunar. Rannsóknastofnun í bókmenntafræði. Reykjavík 1982. 212 bls.
Skipting sögunnar í tímabil er alltaf vandkvæðum bundin og getur aldrei verið einhlít. Að því marki sem slík skipting felur í sér alhæfingar, verður að taka hana með fyrirvara. Engu að síður hafa einstök skeið sögunnar ákveðin séreinkenni, og er það eitt af hlutverkum sagnfræðinnar að greina þau. Auk þess er vart hægt að komast hjá tímabilaskiptingu, ef unnt á að vera að fá fram viðráðanlegar einingar í sagnfræðilegri umræðu.
Ýmis tormerki eru á því að skipta sögu íslenzkrar sagnaritunar í tímabil. Slík tímabil falla til að mynda ekki ávallt að fullu saman við þá skiptingu Íslandssögunnar, sem algengust er. En þó er ljóst, að svokölluð upplýsingaöld í Íslandssögu, síðasti hluti 18. aldar og fyrsti þriðjungur 19. aldar, á sér skýra samsvörun í sögu sagnaritunar.
Það, sem mestan svip setur á íslenzka sagnaritun þessa tímabils, eru áhrif alþjóðlegrar hugmyndastefnu - upplýsingarinnar. Rétt er að hafa í huga, að upplýsingin var engan veginn einangrað fyrirbæri í hugmyndasögunni, og nægir í því sambandi að minna á skyldleika hennar við frjálslyndisstefnu 19. adar. Í sögu íslenzkrar sagnaritunar háttar fyrir skilum, þegar upplýsingaráhrifa fer að gæta að marki í landinu, og einnig, þegar úr þessum áhrifum dregur, en upp frá því er eðlilegra að skilgreina ríkjandi hugmyndafræði í íslenzkri sagnaritun sem þjóðlega frjálslyndisstefnu. Við val sagnaritara í þessa bók virtist liggja beint við að setja mörkin við Finn Jónsson annars vegar og Tómas Sæmundsson hins vegar.
Í þessari inngangsritgerð og við val efnis í bókina er lögð áherzla á þá þætti sagnaritunar tímabilsins, sem telja má einkennandi fyrir það. Þannig er tekið með talsvert efni, þar sem áhrif upplýsingarinnar koma greinilega fram, og leitazt hefur verið við að gefa sem bezta hugmynd um söguspeki Íslendinga á þessu tímabili. Þá hefur verið haft í huga við val kaflanna, að í bókinni yrið að finna fjölbreytt sýnishorn af skrifum Íslendinga um samtímaviðburði. Ritsmíðar fornritafræðinga um söguleg efni, sem liggja á sérsviði þeirra, hafa ekki verið teknar með né heldur ritsmíðar um bókmenntasöguleg efni eða ævisögur. Af þeim sökum er hér t.d. hvorki að finna kafla úr hinu fræga riti Hálfdans Einsarssonar (1732-1785), Sciagraphia Historiae Literariae Islandicae, né úr sjálfsævisögu Jóns Steingrímssonar (1728-1791). Ennfremur skal þess getið, að kaflar úr annálum eru eingöngu eftir þá feðga, Jón Jakobsson og Jón Espólín, þótt ýmsir aðrir hafi sinnt annálaritun. Sumir þessara kafla eru dæmigerðir fyrir þetta form sagnaritunar á tímabilinu.
Höfundur: Ingi Sigurðsson bjó til prentunar
Útgáfuár: 1995
Blaðsíðufjöldi: 212ISBN:9979-54-359-0