Header Paragraph

Stýrir New Chaucer Society

Image

Stjórn New Chaucer Society hefur verið flutt til Háskóla Íslands og mun Sif Ríkharðsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, gegna stöðu framkvæmdastjóra (Executive Director) þess. Þetta er í fyrsta skipti sem félagið er hýst við stofnun sem er staðsett utan Bandaríkjanna.

Chaucer-félagið er formlegur vettvangur fyrir kennara og fræðafólk til að fjalla um fjórtándu aldar skáldið Geoffrey Chaucer, höfund Kantaraborgarsagna, sem og að styðja við rannsóknir á fjórtándu öldinni og miðaldabókmenntum almennt. Í þeim tilgangi gefur félagið m.a. út árbókina Studies in the Age of Chaucer og efnir til stórrar ráðstefnu annað hvert ár sem nefnist The Biennial Congress of the New Chaucer Society. Nítjándi tvíæringur Chaucer-félagsins var haldinn við Háskóla Íslands árið 2014 og sóttu hann rúmlega 500 gestir frá yfir tuttugu þjóðum. Félagið er öflugur alþjóðlegur samstarfsvettvangur sem nær til yfir 900 félagsmanna um heim allan. Það var stofnað á sjöunda áratugnum og fer því brátt að fagna 50 ára starfi á sviði miðaldafræða.

Sif segir það mikinn heiður að fá að leiða félagið á komandi árum. Þetta sé líka öflug kynning fyrir Háskóla Íslands og því starfi sem eigi sér stað innan veggja hans. „Háskólanum var sýnt mikið traust þegar félagið fluttist í fyrsta skipti utan landsteina Bandaríkjanna til Íslands. Að sama skapi eflir það alþjóðlegt samstarf og samvinnu sem er eitt af meginmarkmiðum í stefnu HÍ. Ég á nú í daglegum samskiptum við félaga frá hinum ýmsu heimsálfum. Næsti stjórnarfundur félagsins mun til að mynda ná yfir það mörg tímabelti að hann spannar hreinlega tvo daga með meðlimum frá hinum ýmsu fylkjum Bandaríkjanna, Bretlandi og allt til Ástralíu! Öll mín samskipti og reynsla af samvinnu innan félagsins – bæði sem stjórnarmaður og skipuleggjandi að ráðstefnu félagsins sem haldin var á Íslandi – hafa verið einstaklega gefandi en þarna er að finna suma af hæfileikaríkustu og öflugustu fræðimönnum samtímans á þessu sviði og upprennandi fræðimenn sem eru að taka sín fyrstu skref í fræðunum. Það er einmitt mín von og stefna að taka vel á móti næstu kynslóð félagsmanna sem munu leiða fræðin – og félagið – í framtíðinni.“

Sif Ríkharðsdóttir lauk doktorsprófi með tvöfaldri gráðu í almennri bókmenntafræði og enskum bókmenntum við Washington-háskóla í St. Louis í Bandaríkjunum. Hún hefur starfað sem fræðimaður við Háskóla Íslands frá 2011 og rannsóknir hennar beinast að menningarstraumum á miðöldum, bókmenntasögu sem og tilfinningum og miðlun þeirra í bókmenntum. Hún hefur ritstýrt bókunum The Routledge Companion to Medieval English Literature ásamt Raluca Radulescu (2023)Medieval Literary Voices: Embodiment, Materiality and Performance ásamt Louise D’Arcens (2022); Charlemagne in the Norse and Celtic Worlds ásamt Helen Fulton (2022); og A Critical Companion to Old Norse Literary Genre ásamt Carolyne Larrington og Massimiliano Bampi (2020) og er höfundur bókanna Medieval Translations and Cultural Discourse: The Movement of Texts in England, France and Scandinavia (2012; endurútgefin 2018) og Emotion in Old Norse Literature: Translations, Voices, Contexts (2017).

Image