Header Paragraph

Plássið, ástarþríhyrningar og bandarískar bókmenntir

Image

Haukur Ingvarsson og Jenna Sciuto halda erindi um Sölku Völku í stofunni á Gljúfrasteini sunnudaginn 9. október kl. 15:00. Til umfjöllunar verður meðal annars plássið og samskipti kynjanna auk þess sem Salka Valka verður sett í samhengi við bandarískar bókmenntir. Haukur mun fjalla um „Plássið hennar Sölku“ og tengja við smábæjarbyltinguna í bandarískum bókmenntum. Erindi Jennu Sciuto verður flutt á ensku og ber yfirskriftina „Gender Dynamics and Love Triangles in Halldór Laxness’s Salka Valka and William Faulkner’s Sanctuary“. Jón Karl Helgason stýrir umræðum að loknum erindum. Frítt er inn á viðburðinn.  

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi Gljúfrasteins, The Nordic Faulkner Studies Network og Bókmennta- og listfræðistofnunar Háskóla Íslands.  

90 ár eru liðin frá útgáfu Sölku Völku en hún kom út í tveimur hlutum á árunum 1931–1932. Fyrri bókin, Þú vínviður hreini, kom fyrst út árið 1931 og seinni bókin, Fuglinn í fjörunni, á afmælisdegi Halldórs Laxness 23. apríl 1932. Tímamótunum er fagnað með ýmsum hætti á árinu, bæði á Gljúfrasteini og víðar. Í vor kom Salka Valka til að mynda út í nýrri enskri þýðingu í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þýðandinn er Philip Roughton en áður hefur hann þýtt Gerplu og Vefarann mikla frá Kasmír auk fjölda annarra íslenskra skáldverka.  

Plássið hennar Sölku og smábæjarbyltingin í bandarískum bókmenntum 

Haukur Ingvarsson 
 
Í endurminningabókinni Skáldatíma (1963) gerir Halldór Laxness grein fyrir þeim áhrifum sem þjóðfélagslega skáldsagan bandaríska hafði á hann á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Horfir hann einkum á Sölku Völku en hún var fyrsta skáldsagan frá hans hendi eftir að hann snéri heim til Íslands eftir að hafa dvalið í Bandaríkjunum 1927-29. Af bandaríska skáldsagnahöfundinum Sinclair Lewis segist Halldór hafa lært að „láta margslúngið umhverfið tala sjálft gegnum þann samnefnara stílsins sem höfundurinn telur hlutverk sitt að finna“ (s. 60). Lewis hafði gefið bandaríska smábænum mál í skáldsögu sinni Mainstreet (1920) og nú vildi Halldór gera það sama fyrir íslenska sjávarþorpið. Mainstreet tilheyrði bylgju í bandarískum bókmenntum sem kennd hefur verið við smábæjarbyltingar en fleiri höfundar hafa verið tengdir henni t.a.m. Edgar Lee Masters, Sherwood Anderson og William Faulkner. Í fyrirlestrinum verður Salka Valka sett í þetta bókmenntasögulega samhengi en þá má hafa í huga að Halldór hafði upphaflega hugsað sér að nefna söguna af Sölku Plássið. 
 
Kyngervi og ástarþríhyrningar í Sölku Völku Halldórs Laxness og Griðastað William Faulkners 

Jenna Grace Sciuto 
 
Hegðun Sölku Völku, söguhetju Halldórs Laxness, stríðir gegn þeim hömlum sem settar voru stúlkum og konum í sjávarþorpinu Óseyri við Axlarfjörð. Hún er til dæmis með drengjakoll og kýs frekast að ganga í buxum. Ekki óskyld Sölku er Temple Drake, túlkun William Faulkners á stelputrippum (e. flapper) þriðja áratugar síðustu aldar. Hún ögrar viðteknum hugmyndum samfélags síns um hegðun kvenna með því að staldra hvergi við og laumast út með strákum. Ástarþríhyrningar eru líka hluti af byggingu beggja skáldsagna en þeir draga fram vandamál í samskiptum og samgangi persóna sem fela jafnvel í sér misnotkun. Mótþrói Sölku og Temple gegn hefðbundnum kynhlutverkum varpar ekki aðeins ljósi á sjálfræði þeirra heldur líka á kvenfyrirlitningu sem á sér djúpar rætur í samfélögum Íslands og Suðurríkja Bandaríkjanna. 
 
 
Jenna Grace Sciuto er lektor í ensku við Massachusetts College of Liberal Arts. Hún hefur ritað greinar og bókakafla, m.a. um verk William Faulkners og er höfundur bókarinnar Policing Intimacy: Law, Sexuality, and the Color Line in Twentieth-Century Hemispheric American Literature, sem University Press of Mississippi gaf út árið 2021. Hún vinnur nú að bók sem ber heitið Peripheralized Norths and Souths: Colonial Liminality, Representation, and Intersecting Identities in US Southern and Icelandic Literatures. 
 
Haukur Ingvarsson er rithöfundur og nýdoktor við Háskóla Íslands. Meðal verka hans eru verðlaunaljóðabækurnar Vistarverur (2018) og Menn sem elska menn (2021) og fræðibækurnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) og Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960 (2021). Haukur er ritstjóri Skírnis, tímarits hins íslenska bókmenntafélags, ásamt Ástu Kristínu Benediktsdóttur. 

Image