Header Paragraph

Lokabindi sögu framúrstefnunnar á Norðurlöndum

Image

Út er komin bókin A Cultural History of the Avant-Garde in the Nordic Countries Since 1975 sem er fjórða og síðasta bindið í ritröð um menningarsögu framúrstefnunnar á Norðurlöndum. Meðal ritstjóra lokabindisins er Benedikt Hjartarson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Benedikt var einnig ritstjóri fyrsta bindis ritraðarinnar sem kom út árið 2012 og annars bindisins sem kom út árið 2018, auk þess sem hann átti sæti í ritnefnd þriðja bindisins sem kom út árið 2016. Útgefandi ritraðarinnar er forlagið Brill.

Í lokabindinu er sjónum beint að tímabilinu eftir 1975 og leitast er við að kortleggja áhrifasögu framúrstefnunnar og birtingarmyndir hennar í ólíkum listgreinum, allt frá myndlist og bókmenntum til sviðslista, kvikmynda, tónlistar og annarra listgreina. Á tímabilinu sem hér er til skoðunar má segja að framúrstefnan sé ótvírætt orðin að hefð og í ritinu er glímt við úrvinnslu og gagnrýni á arfleifð framúrstefnunnar innan ólíkra menningarsviða og innan ólíkra miðla allt til stafrænnar menningar samtímans. Jafnframt er sjónum beint að stöðu framúrstefnunnar á tímum hnattvæðingar, skemmtanaiðnaðar og umhverfisvár.

Í bókinni er að finna níu greinar sem eru helgaðar íslensku efni, þar á meðal tvær greinar eftir Benedikt Hjartarson, annars vegar „Towards a Kinetic Icelandic Culture: Friðrik Þór Friðriksson, Suðurgata 7 and Experimental Film in Iceland“ og hins vegar „Constructing an Avant-Garde Canon in the Twenty-First Century: On the Icelandic Poetry Group Nýhil.“ Aðrir höfundar íslenskra greina eru Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Íslensku- og menningardeild HÍ, Holger Schulze, Magnús Þór Þorbergsson, Margrét Elísabet Ólafsdóttir, Ana Stanićević, Úlfhildur Dagsdóttir og Kjartan Már Ómarsson. 

Benedikt Hjartarson lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Groningen árið 2012 og hefur verið prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ frá 2015. Rannsóknir hans liggja á sviði sögulegrar orðræðugreiningar og menningarsögu. Meginviðfangsefni rannsóknanna hafa verið evrópskar framúrstefnuhreyfingar á umræddu tímabili, þar á meðal fútúrismi, dadaismi, expressjónismi, kontstrúktífísmi og súrrealismi. Greinar hans um evrópska framúrstefnu hafa birst á íslensku, þýsku, ensku, sænsku, dönsku og serbnesku. Benedikt hefur átt sæti í stjórn rannsóknanetsins (European Network for Avant-Garde and Modernism Studies) frá stofnun þess árið 2007, auk þess sem hann hefur átt sæti í stjórn Norræns tengslanets í rannsóknum á framúrstefnu (Nordic Network of Avant-garde Studies). Benedikt hefur þýtt nokkuð af erlendum, einkum þýskum og frönskum, fræðitextum á sviði menningarfræði og þekkingarsögu. Má þar nefna greinar og bókakafla eftir Georg Simmel, Norbert Elias, Walter Benjamin, André Bazin, Michel Foucault, Theodor W. Adorno og Max Horkheimer.

Image