Hádegispallborð um bókina Þú ringlaði karlmaður
Efnt verður til pallborðsumræðna um bók Rúnars Helga Vignissonar, Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu, í sal Þjóðminjasafnsins þriðjudaginn 12. nóvember kl. 12–13.
Þátttakendur verða Ásta Kristín Benediktsdóttir, Signý Sigurðardóttir, Sigurður Gylfi Magnússon og Sverrir Norland. Fimmti stóllinn verður svo ætlaður þátttakendum í sal sem vilja taka til máls um efni bókarinnar.
Bók Rúnars Helga er eins konar ratleikur um kynjakerfið. Í kjölfar #metoo áttar höfundur sig á því að hann stendur varla lengur undir sér sem karlmaður og vill helst afsala sér því hlutskipti. Hvað er til ráða? Höfundur ákveður að uppfæra sig í kynjafræðum og grandskoða sjálfan sig með gleraugum þeirra. Hvernig fellur hann að hugmyndum um hefðbundna karlmennsku? Er hann kannski karlakarl? Höfundur skoðar mótunaröflin sem orkuðu á hann í uppvexti og rýnir í helstu hlutverk sín í lífinu, t.d. sem eiginmanns, ástmanns, föður, tengdasonar og afa. Útkoman er opinská og vægðarlaus greining á karlinum sem höfundur hefur að geyma.
Bók Rúnars Helga hefur vakið talsverða athygli og fengið lofsamlegar umsagnir gagnrýnenda sem almennra lesenda. „Markmið hans er tvímælalaust að stofna til sanngjarnrar og yfirvegaðrar umræðu sem byggist á þekkingu og skilningi, ekki sjálfshafningu og árásargirni,“ sagði Kristján Jóhann Jónsson, Morgunblaðinu. Fríða Björk Ingvarsdóttir bókmenntafræðingur sagði bókina gríðarlega merkilegt innlegg í jafnréttis- og kynjaumræðuna. Þá þykir Rúnar Helgi sýna hugrekki með því að senda frá sér einlægan og opinskáan texta um viðkvæmt málefni.