Dagný Kristjánsdóttir

Image

Dagný Kristjánsdóttir fæddist 19. maí 1949 á Akureyri og ólst þar upp. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1970 og fór þá suður til frekara náms. Dagný lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1975 og auk þess BA-prófi í almennri bókmenntasögu frá sama skóla 1977. Þaðan lauk hún einnig cand. mag.-prófi í íslenskum bókmenntum 1979 og doktorsprófi 1997. Frá 1982 til 1990 eða um átta ára skeið var hún íslenskur sendilektor við Háskólann í Osló. Dagný var ráðin að Háskóla Íslands 1990 sem lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Hún fékk brátt framgang í starf dósents og síðan í starf prófessors árið 2001. Frá 2005 til 2019 gengdi hún starfi prófessors í íslenskum bókmenntum.

Meðal helstu fræðirita Dagnýjar eru doktorsritgerðin Kona verður til: Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir fullorðna (1996), viðamikill kafli um íslenska skáldsagnagerð í Íslenskri bókmenntasögu IV, greinasafnið Undirstraumar (1999), kennslubókin Öldin öfgafulla: Bókmenntasaga tuttugustu aldarinnar (2010) og fræðiritið Bókabörn: Íslenskar barnabókmenntir verða til (2015). Kona verður til og Bókabörn voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita 1996 og 2015.

Dagný hefur auk þess skrifað fjölda greina og haldið marga fyrirlestra um ýmis efni. Hún hefur á síðustu árum orðið þjóðþekkt sem leiklistargagnrýnandi í sjónvarpinu. Hún hefur einnig gegnt margvíslegum stjórnunarstörfum, verið skorarformaður í íslensku, forstöðumaður Bókmenntafræðistofnunar (eins og hún hét þá) og forseti Íslensku- og menningardeildar, auk þess að sitja í dómnefnd fyrir Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Dagný hefur líka látið til sín taka í þjóðfélags- og réttindamálum. Hún hefur tekið virkan þátt í kvennahreyfingunni og skrifað margt um kynjafræði. Börn og menning þeirra hefur verið sérstakt áhugaefni Dagnýjar en hún hefur einnig stundað bókmenntarannsóknir sem kenna má við sálgreiningu, femínisma og læknahugvísindi.

Hér fyrir neðan má nálgast helstu ritsmíðar Dagnýjar á vettvangi bókmenntafræða sem birst hafa í íslenskum tímaritum og dagblöðum eða eru aðgengilegar rafrænt. Greinarnar eru flokkaðar eftir efni og raðað í tímaröð innan hvers flokks.

Fræðirit

Greinar um íslenskar skáldsögur og smásögur

Greinar um íslenska ljóðlist og leiklist

Ritgerðir um samtímamenningu, femínisma og sálgreiningu

Ritdómar um verk íslenskra höfunda

Um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Greinar um ýmis efni

Viðtöl sem Dagný Kristjánsdóttir hefur tekið

Viðtöl við Dagnýju Kristjánsdóttur