Ásdís Egilsdóttir

Image

Ásdís Egilsdóttir fæddist í Reykjavík 26. október 1946. Hún lauk stúdentsprófi frá Mennaskólanum í Reykjavík 1966 og innritaðist í BA nám í íslensku, bókasafnsfræði og frönsku sama ár. Ásdís lauk BA prófi 1970 og var þá ráðin til starfa við bókasafn Stofnunar Árna Magnússonar. Eftir nokkurra ára hlé innritaðist hún í nám í íslenskum bókmenntum til kandídatsprófs og lauk því 1982. Í námi sínu sérhæfði hún sig í bókmenntum fyrri alda. Frá árinu 1982 var Ásdís reglulega stundakennari við Háskóla Íslands uns hún var ráðin lektor 1991. Hún fékk síðar framgang í starf dósents og loks prófessors, árið 2009. Því starfi gegndi hún þar til hún lét af störfum fyrir aldur sakir, í októberlok 2016.

Rannsóknir Ásdísar spanna vítt svið innan íslenskra miðaldabókmennta, en megináherslur í rannsóknum hennar eru norrænar helgibókmenntir, þýddar og frumsamdar, karlmennska og kynferði, ritun og lestur og læsi á miðöldum og minni og minnistækni miðalda. Greinasafn með úrvali úr greinum hennar, Fræðinæmi var gefið út í tilefni af sjötugsafmæli hennar, í október 2016. Hún hefur flutt fjölda fyrirlestra við íslenska og erlenda háskóla. Meðal helstu rita hennar má telja Biskupa sögur II (2020), sem er útgáfa á Hungurvöku, Þorláks sögu ásamt og Pálssögu, með rækilegum inngangi og skýringum. Einnig annaðist Ásdís ein útgáfu á Þorláks sögu (1989) og á Maríukveri (1996) ásamt Gunnari Harðarsyni og Svanhildi Óskarsdóttur. Ásamt Dagnýju Kristjánsdóttur, prófessor í íslenskum bókmenntum og Bryndísi Benediktsdóttur, prófessor í samskiptafræði í læknadeild, hafði Ásdís frumkvæði að því að koma á fót kennslu í læknahugvísindum.

Ásdís hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum við Háskóla Íslands. Meðal annars var hún formaður Íslenskuskorar 1995 – 1998 og sat í stjórn Rannsóknastofnunar í bókmenntafræði 1994 – 1996 og í stjórn Bókmennta- og listfræðistofnunar 2014 – 1016. Ásdís var virk í Nordplus, Erasmus og Sókrates samstarfi og hefur verið gestakennari við tíu erlenda háskóla í sjö löndum.

Hér fyrir neðan má nálgast þær ritsmíðar Ásdísar sem birtust í Fræðinæmi. Greinar gefnar úr í tilefni af 70 ára afmæli Ásdísar Egilsdóttur (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag og Bókmennta- og listfræðastofnun, 2016), sem og þær sem birst hafa í íslenskum tímaritum og eru aðgengilegar rafrænt. Greinarnar eru flokkaðar eftir efni og raðað í tímaröð innan hvers flokks. Greinarnar úr Fræðinæmi eru stjörnumerktar (*). Einnig má nálgast hér ritaskrá Ásdísar (pdf-skjal).

Greinar um helgisögur

Greinar um karlmennsku og kynjafræði

Greinar um ýmis efni