Háskóli Íslands

Emeriti

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emerita

Dagný Kristjánsdóttir fæddist 19. maí 1949 á Akureyri og ólst þar upp. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1970 og fór þá suður til frekara náms. Dagný lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1975 og auk þess BA-prófi í almennri bókmenntasögu frá sama skóla 1977. Þaðan lauk hún einnig cand. mag.-prófi í íslenskum bókmenntum 1979 og doktorsprófi 1997. Frá 1982 til 1990 eða um átta ára skeið var hún íslenskur sendilektor við Háskólann í Osló. Dagný var ráðin að Háskóla Íslands 1990 sem lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Hún fékk brátt framgang í starf dósents og síðan í starf prófessors árið 2001. Frá 2005 til 2019 gengdi hún starfi prófessors í íslenskum bókmenntum. Nánari upplýsingar.

Helga Kress, prófessor emerita

Helga Kress er fædd í Reykjavík 21. september árið 1939. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1959 og kandídatsprófi í íslensku með þýsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands vorið 1969. Árið 1970 var hún skipuð lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta við heimspekideild Háskóla Íslands og var fyrsta konan sem fékk skipun í lektorsstöðu við deildina. Á árunum 1973 til 1979 var hún sendikennari í íslensku við Háskólann í Bergen í Noregi. Helga var skipuð lektor í almennri bókmenntafræði 1981 og ári síðar dósent í sömu grein. Árið 1991 var hún skipuð prófessor í almennri bókmenntafræði við heimspekideild Háskóla Íslands og gegndi því starfi til 2009. Hún var forseti heimspekideildar Háskóla Íslands 1997-1999 og var fyrsta konan sem kjörin var til embættis deildarforseta við Háskóla Íslands frá stofnun hans 1911. Nánari upplýsingar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is