Háskóli Íslands

Stofur

Við Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands hafa verið stofnaðar þrjár rannsóknastofur: Rannsóknastofa um framúrstefnu, rannsóknastofa í hugrænum fræðum og rannsóknastofa í minni og bókmenntum.

Markmið og tilgangur rannsóknastofanna er að leiða saman fræðimenn úr ólíkum greinum, skipuleggja rannsóknaverkefni og eiga aðild að þeim, standa fyrir ráðstefnum og málstofum, stuðla að samstarfi við stofnanir innan og utan Háskóla Íslands, beita sér fyrir útgáfu fræðilegs efnis og stuðla að kennslu og kennaraskiptum á fræðasviðinu.

Rannsóknastofa um framúrstefnu, sem Benedikt Hjartarson prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði veitir forstöðu, er helguð rannsóknum á framsæknum hreyfingum og straumum í bókmenntum og listum. Rannsóknir á framúrstefnu hafa farið ört vaxandi á síðustu árum, þverfaglegum rannsóknum á viðfangsefninu hefur fjölgað og alþjóðleg tengslanet hafa sprottið upp á rannsóknasviðinu. Stofan mun rúma rannsóknir á birtingarmyndum framúrstefnu í ólíkum listgreinum, allt frá upphafsárum 20. aldar til samtímans. Að starfinu mun koma fjöldi fræðimanna úr ólíkum greinum, sem hafa verið virkir á rannsóknasviðinu síðustu ár, auk þess sem ætlunin er að laða að verkefninu yngri fræðimenn og doktorsnema. Frekari upplýsingar um stjórn stofunnar, ráðgjafanefnd og verkefnin framundan má finna á avantgarde.hi.is.

Rannsóknastofa í hugrænum fræðum, sem Bergljót Soffía Kristjánsdóttir prófessor í íslenskum bókmenntum veitir forstöðu, fæst einkum við rannsóknir á bókmenntum og máli í samstarfi við fræðimenn úr öðrum greinum, innlenda og erlenda. Stofan leitast við að efla fræðasviðið hérlendis, t.d. með þátttöku stúdenta í rannsóknarverkefnum og ráðstefnum, jafnframt því sem hún á í samvinnu við erlenda fræðimenn. Hugræn bókmenntafræði og hugræn málvísindi hafa frá upphafi verið þverfagleg. Þau hafa eflst mjög síðustu áratugi, og sækja nú ekki síður til greina eins og taugafræði og tónlistarfræða en sálfræði, mannfræði og heimspeki. Stofa um hugræn fræði beitir sér að afmörkuðum verkefnum á hverjum tíma og sem stendur eru rannsóknir á tilfinningum, geðshræringum og samlíðan fyrirferðarmestar. Frekari upplýsingar um stjórn stofunnar, ráðgjafanefnd og verkefnin framundan má finna á empathy.hi.is.

Rannsóknastofa í minni og bókmenntum, sem Gunnþórunn Guðmundsdóttir prófessor í almennri bókmenntafræði veitir forstöðu, er vettvangur fyrir rannsóknir í minnisfræðum og bókmenntum og fyrir þverfræðilegt samstarf og verkefni af ýmsu tagi og miðlun upplýsinga sem starfinu tengjast. Áhugi á minnisfræðum hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár, sérstaklega í félagsvísindum, sagnfræði og nú einnig bókmenntafræði. Sviðið er því mjög þverfaglegt og mikilvægt áhugasvið í bókmenntafræði sem opnar fjölmarga möguleika fyrir rannsóknir fræðimanna og nemenda. Stofan mun stefna saman fræðimönnum með mikla reynslu, auk þess að laða að nýja rannsakendur og styðja við doktorsnema á fræðasviðinu. Frekari upplýsingar um stjórn stofunnar, ráðgjafanefnd og verkefnin framundan má finna á memory.hi.is.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is